Leita í fréttum mbl.is

Fjárfesting í menningu og mannúð - Nýr sjóður Spron verður til - fyrsti hluti

Neðangreind grein eftir undirritaða birtist á miðopnu Morgunblaðsins í dag.  Aðrar tvær greinar um sama efni munu væntanlega birtast þar á næstu dögum....

---------------------------------------------------------------------------- 

Fréttir af  tillögu stjórnar Spron um að breyta sparisjóðnum í hlutafélag vekja athygli.  Nái tillagan fram verður til sjálfstæður sjóður undir merkjum sjálfseignarstofnunar með stofnfé sem nú er metið á um 9 milljarða króna. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki skal megin tilgangur sjálfseignarstofnunarninnar vera sá að „stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins” en einnig er heimilt að „úthluta af fjármunum sjálfseignastofnunarinnar til menningar og líknamála á starfssvæði sparisjóðsins”. Nýi Spron-sjóðurinn verður langstærsti einstaki sjóður sinnar tegundar í landinu. Ætla má að árleg úthlutun sjóðsins verði hálfur til einn milljarður króna. Enginn sjóður af þessari stærðargráðu er til í landinu. Það er því ástæða til að staldra við og velta fyrir sér þeim möguleikum og tækifærum sem stofnun sjóðsins gefur og hvaða stefnu og skipulag eigi að setja honum.  Nokkur lykilatriði skipta höfuðmáli í fyrstu stefnumótun sjóðsins. 

Málstaðurinn 

Stærsta verkefnið framundan er að þróa og móta hlutverk og sýn sjóðsins. Hver er tilgangurinn?  Hefur hann eitthvert samfélagslegt hlutverk?  Vill hann breyta einhverju?  Vill hann berjast fyrir einhverju?  Málstað? Til að svara þessum spurningum verður að líta til laganna en ekki síður hins samfélagslega framfarahlutverks sem sparisjóðir hafa haft í byggðum landsins.Rétt er að horfa til upprunans um leið og horft er til framtíðar.Hafi sjóðurinn málstað getur hann ekki orðið hlutlaus veitandi fjármagns heldur þvert á móti síkvikt afl sem lætur sig varða það sem mest brennur í samfélaginu hverju sinni og virkar sem hvati fyrir breytingar. Slíkur sjóður, sem er engum háður, getur orðið sjálfstæð rödd í samfélaginu sem með gjörðum sínum getur gert hið óhugsandi hugsanlegt, staðið fyrir framförum og nýsköpun sem ella hefði ekki orðið.   

Fjárfesting

Svari menn þeirri spurningu jákvætt að sjóður sem þessi eigi að hafa málstað er mikilvægt að frá upphafi verði fjárveitingar sjóðsins hugsaðar sem fjárfestingar en ekki styrkur, stuðningur eða úthlutun.  Sjóðurinn á ekki að úthluta fé heldur fjárfesta í verkefnum hvort sem hann gerir það einn og sér eða í samstarfi við aðra.  Sjóðurinn á að standa fyrir félagslegum og menningarlegum fjárfestingum þar sem gerð er krafa um arðsemi en að sú arðsemi verði ekki af fjárhagslegum toga heldur felist í þeim umbótum, breytingum eða framþróun sem verður.  Svona nálgun krefst þess að sjóðurinn og starfsfólk hans séu frumkvöðlar, að þau skapi, stuðli að og leiti upp þau verkefni  sem fjárfest er í um leið og þau er opin fyrir tilboðum og beiðnum annarra um samstarf sjóðsins. Margar fyrirmyndir má finna erlendis um rekstur og stefnumótun sambærilegra sjóða, bæði hvað varðar hlutverk og stefnu en einnig hvernig ávöxtun sjóðsins verði best tryggð.  Í því tilliti skiptir ekki síst máli að skattalöggjöf verði rýmkuð hér á landi hvað varðar fjárfestingar í menningar og mannúðarmálum.  

Sjálfstæði og fagmennska

Samkvæmt lögum um breytingu sparisjóða í hlutafélög eiga sæti í stjórn sjóðs eins og hér um ræðir tveir fulltrúar viðkomandi sveitarfélags, einn fulltrúi tilnefndur af fjármálaráðherra og tveir fulltrúar tilnefndir af viðskiptaráðherra. Stjórnin er með öðrum orðum pólitískt skipuð sem er frábrugðið því sem almennt er venja um sjálfseignarstofnanir.  Hvers vegna löggjafinn valdi þessa skipan er ekki til umræðu hér, en sjálfsagt er að huga að því hvort önnur leið geti ekki verið heppilegri. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir þær sakir að Spron sjóðurinn verður fyrirmynd annarra sjóða sem líklega verða stofnaðir á næstu árum við breytingar á öðrum sparisjóðum landsins.  Rannsóknir erlendis sýna að því sjálfstæðari sem slíkir sjóðir eru því líklegri eru þeir til að geta haft veruleg áhrif til framfara í samfélaginu.  Við rekstur sjóðsins er mikilvægt að hvergi verði hvikað frá faglegum sjónarmiðum. Við ráðningu stjórnenda og ráðgjafa verður að taka mið af þekkingu þeirra á viðfangsefnum sjóðsins og hvort þeir hafa þann skapandi huga sem þarf til að finna þessu nýja afli raunverulegt hlutverk í samfélaginu. Síðast en ekki síst hlýtur það að vera verkefni stjórnenda að móta stefnu um verkefni sjóðsins og bera uppi málstaðinn til framtíðar og hvaða hlutverk sjóðnum er ætlað í hinu stærra, samfélagslega samhengi.   

Framtíð Spron

Líklegt má teljast að hlutafélagið Spron taki breytingum og jafnvel sameinist öðrum fjármálafyrirtækjum þegar fram líða stundir.  Saga Spron er um margt merkilegt ekki síst fyrir þær sakir að sparisjóðurinn hefur frá upphafi látið sig samfélag sitt varða og er menningarsjóður Spron einn sá elsti í landinu.  Spron nýtur virðingar í samfélaginu og hefur árum saman átt hvað ánægðustu viðskiptavinina samkvæmt ánægjuvog Gallups.

Hvað sem verður um Spron hf. er ljóst að takist að standa faglega að stofnun hins nýja sjóðs mun orðspor og arfleifð Spron lifa áfram og verða mikilvægur aflvaki nýsköpunar í menningu og mannúð á Íslandi. 
Höfundur starfar í listum og er viðskiptavinur Spron  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það verður mjög spennandi að fylgjast með þróun sjóðsins og þeim verkefnum sem hann kemur að.

 p.s. Ekki hafði ég hugmynd um að þú værir með blogg! 

Harpa J (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ása Richardsdóttir
Ása Richardsdóttir

Alþjóðasinni, umhverfissinni, feministi.  Framkvæmdastjóri í listum - góð blanda af businesshugsun og ástríðu virkar best.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband