Leita í fréttum mbl.is

Hvar liggja tækifærin? - Nýr sjóður Spron verður til – þriðji hluti

Ég hef í tveimur greinum hér í Morgunblaðinu fjallað um fyrirhugaðan  Spron-sjóð sem ætlað er að fjárfesta í menningar- og mannúðarmálum. Í umfjöllun minni hefi ég sérstaklega leitað upplýsinga í Bretlandi um hvernig slíkir sjóðir eru reknir.  Í þriðju og síðustu grein minni velti ég fyrir mér hver þau verkefni eru hér sem sjóðurinn gæti helst látið sig varða. Í Bretlandi hafa rannsóknir sýnt að sjálfstæðir sjóðir af því tagi sem Spron-sjóðurinn verður fjárfesta fyrst og fremst á sex afmörkuðum sviðum:   
  • Félagslegu starfi með aðaláherslu á heilbrigðismál, menntun og þarfir þeirra sem á einhvern hátt hafa farið halloka í samfélaginu.
 
  • Menningu þar sem varðveisla menningararfsins er fyrirferðarmikil, en nú með aukinni áherslu á eflingu lista og skapandi atvinnugreina.
 
  • Vísindum þar sem fjárfesting í rannsóknum er langstærsti hlutinn.
 
  • Náttúruvernd þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra þróun og alþjóðlegar skuldbindingar í náttúruverndarmálum.
 
  • Mannúðarstarfi en til þess málaflokks telja Bretar m.a. baráttuna gegn fátækt í heiminum, hamfarahjálp og stríðið gegn útbreiðslu alnæmis.
 
  • Nærumhverfi þar sem endurreisn borgarhverfa er fyrirferðarmikil.
  Flestir geta verið sammála um að á Íslandi megi finna dæmi um verðug verkefni á þeim sviðum sem ofan greinir sem og á ýmsum öðrum sviðum.Það skiptir öllu máli þegar nýtt fjármagn ætlað til menningar og mannúðar kemur inn á markaðinn að rík hugsun sé lögð í hvernig er best að verja því fé og þá sérstaklega, hvernig tryggja megi að það skili sem mestum áhrifum í þágu samfélagsins.  Í fyrstu grein minni færði ég rök fyrir því að sjóðurinn ætti að láta sig varða það sem mest brennur á í samfélaginu hverju sinni og virka sem hvati fyrir breytingar. Með stofnun Spron-sjóðsins kemur nýtt fjármagn inn á markað sem hingað til sem hér eftir mun njóta stuðnings ríkisvalds og sveitarfélaga sem og vera í samstarfi við fyrirtæki og einstaklinga um margvísleg verðug samfélagsverkefni. Spronsjóðurinn er algjör viðbót við það sem fyrir er og á ekki að koma í stað ríkisframlaga eða annarrar fjármögnunar.Slíkur stórsjóður, sem er engum háður, getur orðið sjálfstæð rödd í samfélaginu sem með gjörðum sínum getur gert hið óhugsandi hugsanlegt.  En lykilatriði er að sjóðurinn mun ekki og getur ekki starfað einn að slíkum stórverkefnum.  Samstarf og samtal við stjórnvöld, félagasamtök, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga skiptir höfuðmáli.  Verði slík framtíðarsýn mótuð til handa sjóðnum  og stjórnvöld, ríki og sveitarfélög sem og félagssamtök, fyrirtæki og stofnanir taka þeirri nálgun fagnandi eru möguleikarnir óendanlega margir. Sem dæmi, er hugsanlegt að sjóðurinn geti
  • hrint í framkvæmd átaki í samvinnu við stjórnvöld sem útrýmir launamisrétti?
  • komið að gjörbyltingu fangelsismála á Íslandi sem leiddi til þess að Ísland yrði fyrirmyndarland hvað varðar aðbúnað fanga?  
  • fjárfest í gjörbreyttri almennri listmenntun barna á grunnskólastigi?
  • staðið að eflingu rannsókna í byggingalist og skipulagsmálum og um leið stuðlað að aukinni vitund almennings almennings um mikilvægi vandaðrar vinnu á þeim sviðum?    
  • lagt því lið að innflytjendur eigi auðveldara en nú með að aðlagast íslensku samfélagi?     
  • orðið drifkraftur í því að íslensk hönnun verði veigamikill þáttur útflutningi Íslendinga?   
  Nú þegar unnið er að stofnun sjóðsins er mikilvægt að fari fram lifandi, kröftug og opin umræða um hlutverk hans og hverju hann gæti áorkað til framtíðar.  Slíkur samfélagssjóður með fjárfestingargetu allt að einum milljarði króna mun hafa burði til að ráðast í verkefni í samvinnu við aðra sem gætu leitt til verulegra framfara í samfélaginu.  Finni sjóðurinn málstað sinn, eru honum allir vegir færir.    
  
Höfundur starfar í listum og er viðskiptavinur Spron        

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru allt verðug verkefni ekki spurning um það.

Mér finnst samt að ríkið eigi að borga almennilegt fangelsi og allt í kring um það. Við höfum alveg efni á því.

Hvernig væri að sameina lið 3 og lið 6? Það er þetta með listmenntun barna og hönnunina? Það gæti vel stutt hvort annað og verið glæsileg verkefni fyrir svona sjóð.

Harpa J (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ása Richardsdóttir
Ása Richardsdóttir

Alþjóðasinni, umhverfissinni, feministi.  Framkvæmdastjóri í listum - góð blanda af businesshugsun og ástríðu virkar best.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband